Selfyssingar náðu ekki sínu fram

Ragnar Jóhannsson skoraði sjö mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Karlalið Selfoss í handbolta lék sinn fyrsta leik í Olísdeildinni í vetur þegar liðið heimsótti Fram í Safamýrina. Heimamenn voru sterkari og sigruðu, 29-23.

Framarar tóku frumkvæðið strax í upphafi leiks og náðu fljótlega góðu forskoti. Munurinn varð mestur fimm mörk undir lok fyrri hálfleiks en staðan í leikhléi var 15-11.

Leikurinn spilaðist svipað í seinni hálfleiknum, Fram hélt þriggja til fjögurra marka forskoti en Selfyssingar náðu ekki sínu fram í sókninni og gekk illa að skora á löngum köflum. Þegar tíu mínútur voru eftir hljóp hins vegar spenna í leikinn og Selfoss náði að minnka muninn úr fimm mörkum niður í tvö mörk, 23-21, þegar átta mínútur voru eftir. Framarar voru fljótir að rífa sig upp aftur, juku muninn aftur í fimm mörk og kláruðu leikinn af miklu öryggi.

Ragnar Jóhannsson og Hergeir Grímsson skoruðu 6 mörk fyrir Selfoss, Einar Sverrisson 6/4, Ísak Gústafsson 3 og þeir Atli Ævar Ingólfsson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu 1 mark hvor. Elvar Elí Hallgrímsson var með 6 lögleg stopp í vörninni og tvö blokkeruð skot og Einar Sverris var með 5 lögleg stopp og sömuleiðis tvö blokkeruð skot.

Vilius Rasimas varði 12/1 skot í marki Selfoss og var með 32% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 2 skot og var með 67% markvörslu.

Fyrri greinVæn sekt fyrir hraðakstur
Næsta greinTíu marka sigur Selfoss