Selfyssingar meistarar meistaranna

Kvennalið Selfoss sigraði Meistarakeppni KSÍ í vor. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bikarmeistarar Selfoss sigruðu Íslandsmeistara Vals 1-2 í Meistarakeppni KSÍ í knattspyrnu að Hlíðarenda í dag.

Vildum stimpla okkur svona inn í sumarið
„Við vorum mjög slitnar í fyrri hálfleik og hluti af skýringunni er sá að við höfum ekki æft allt of mikið saman. Það er fínt að fá þennan leik til þess að ná að samstilla okkur. Við fórum vel yfir málin í leikhléinu og það gekk betur að pressa og loka á Valsliðið í seinni hálfleiknum. Ég er mjög ánægður með dugnaðinn í liðinu og þegar við bætum við gæðunum sem við höfum þá erum við til alls vísar,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við vildum klárlega stimpla okkur svona inn í sumarið og sýna að okkur er alvara. Það eru þrír bikarar í boði í sumar og við ætlum að taka þá alla,“ sagði Alfreð ennfremur.

Glæsileg mörk Selfyssinga
Valskonur voru mun sterkari í fyrri hálfleik og komust í 1-0 á 37. mínútu. Valsliðið fékk nokkur góð færi til viðbótar í fyrri hálfleik en Selfyssingar ógnuðu lítið.

Staðan var 1-0 í leikhléi en Selfyssingum gekk mun betur að halda stjórn á boltanum í seinni hálfleik og þeir uppskáru jöfnunarmark strax á 52. mínútu. Tiffany McCarty sneri þá á tvo varnarmenn Vals og lagði boltann glæsilega í netið.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta en Valur var meira með boltann. Sigurmarkið leit svo dagsins ljós á 80. mínútu þegar fyrirliðinn Anna María Friðgeirsdóttir lét vaða af 30 metra færi yfir Söndru Sigurðardóttur í marki Vals.

Valur fékk færi til að jafna á lokakaflanum en Selfossvörnin hélt og Kaylan Marckese stóð vaktina vel í markinu.

Bikarafhendingin var óvenjuleg vegna COVID-19 en hér „afhendir“ Guðni Bergsson, formaður KSÍ, Önnu Maríu Friðgeirsdóttur, fyrirliða Selfoss, bikarinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHamar áfram í bikarnum
Næsta greinHamarskonur komust ekki á flug í fyrsta leik