Selfyssingar með bakið upp við vegg

Katla María Magnúsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss er heldur betur komið með bakið upp við vegg í einvíginu gegn ÍR í umspili um sæti í Olísdeild kvenna í handbolta að ári.

ÍR, sem varð í 2. sæti Grill-66 deildarinnar í vetur, er komið í 2-0 í einvíginu eftir 29-28 sigur í framlengdum leik í Breiðholtinu í dag. Það hefur aldrei gerst áður að neðrideildarliðið komist í 2-0 í umspili gegn liði úr Olísdeildinni og Selfyssingar þurfa nú að vinna þrjá leiki í röð, ætli þær sér að spila í deild þeirra bestu á næstu leiktíð.

Katla María Magnúsdóttir hélt uppi sóknarleik Selfyssinga í dag og skoraði meira en helming marka liðsins, 16 mörk. Roberta Stropé skoraði 4, Rakel Guðjónsdóttir 3, Arna Kristín Einarsdóttir 2 og þær Karen Helga Díönudóttir, Tinna Sigurrós Traustadóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir skoruðu 1 mark hver. Cornelia Hermansson varði 11 skot í marki Selfoss.

LIðin mætast næst í Set-höllinni næstkomandi miðvikudag.

Fyrri greinFallist á kröfur um gæsluvarðhald
Næsta greinKFK sló út KFR og Árborg