Selfyssingar lengi í gang – Mílan tapaði úti

Selfoss kreisti fram útisigur á ÍH og Mílan tapaði sannfærandi fyrir Stjörnunni í 1. deild karla í handbolta í kvöld.

Selfoss átti í mesta basli við að slíta sig frá ÍH í leiknum í kvöld, en liðin eru að berjast á sitthvorum enda stigatöflunnar í deildinni. Fyrri hálfleikur var jafn en ÍH náði þriggja marka forskoti undir lok hans, 17-14, og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var jafn framan af en Selfyssingar náðu að snúa leiknum sér í vil á lokakaflanum. Staðan var 24-24 þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum en þá girtu Selfyssingar sig í brók og luku leiknum með 1-4 leikkafla, lokatölur 25-29.

Andri Már Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 10/3 mörk. Elvar Örn Jónsson skoraði 6, Hergeir Grímsson 3, Atli Kristinsson, Guðjón Jónsson og Eyvindur Hrannar Gunnarsson 2 og þeir Teitur Örn Einarsson, Alexander Egan, Sverrir Pálsson og Birkir Fannar Bragason skoruðu 1 mark hver.

Birkir Fannar Bragason varði 10/1 skot í marki Selfoss og var með 42% markvörslu og Helgi Hlynsson varði 5 skot og var með 33% markvörslu.

Spennandi upphafsmínútur í Ásgarði
Leikur Stjörnunnar og Mílunnar var jafn og spennandi – fyrstu tíu mínúturnar. Þá var staðan 4-4 en eftir það tóku Stjörnumenn leikinn yfir og leiddu 17-11 í hálfleik. Munurinn var tíu mörk um miðjan seinni hálfleikinn, 26-16 en að lokum skildu fimmtán mörk liðin að, 36-21.

Magnús Öder Einarsson skoraði 6 mörk, Sævar Ingi Eiðsson 4, Ingvi Tryggvason og Sigurður Már Guðmundsson 3, Magnús Már Magnússon 2 og þeir Árni Felix Gíslason, Jóhannes Snær Eiríksson og Hermann Guðmundsson skoruðu eitt mark hver.

Ástgeir Sigmarsson varði 17 skot í marki Mílunnar og var með 53% markvörslu og Bogi Pétur Thorarensen varði 1/1 skot og var með 33% markvörslu.

Að loknum átján umferðum er Selfoss í 2. sæti deildarinnar með 30 stig, en Fjölnir er í 3. sæti með 28 stig eftir að hafa tapað fyrir HK í síðustu umferð. HK sigraði svo Þrótt í kvöld og er þar með komið uppfyrir Míluna á stigatöflunni. HK hefur 14 stig í 5. sæti, en Mílan 13 stig í 6. sæti. Þrjár umferðir eru eftir í deildinni en liðið í 5. sæti kemst í úrslitakeppni deildarinnar.

UPPFÆRT KL. 23:47

Fyrri greinHamar lék á alls oddi í Borgarnesi
Næsta greinMikið sandfok við Óseyrarbrú