Selfyssingar komust ekki í gang

Selfyssingar töpuðu fyrir Aftureldingu, 30-25, í fyrsta leik liðanna í umspili um sæti í N1 deildinni í handbolta. Selfyssingar voru ekki að finna sig í leiknum og sigur heimamanna var aldrei í hættu.

Selfyssingum gekk illa að skora í upphafi leiks þar sem markvörður heimamanna fór mikinn í markinu. Helgi Hlynsson byrjaði líka vel í marki Selfoss og varði fimm skot á fyrstu tíu mínútunum en að sextán mínútum loknum var staðan 3-1. Sóknir liðanna voru árangursríkari síðustu fjórtán mínútur fyrri hálfleiks og staðan var 17-9 í hálfleik.

Afturelding hafði undirtökin í seinni hálfleik en þegar leið á nálguðust Selfyssingar og þegar þrjár mínútur voru eftir áttu þeir möguleika á að minnka muninn í þrjú mörk. Nær komust þeir vínrauðu ekki og Afturelding vann öruggan sigur.

Atli Kristinsson var markahæstur Selfyssinga með átta mörk. Matthías Halldórsson og Janus Daði Smárason skoruðu báðir fjögur mörk, Ómar Helgason og Hörður Bjarnarson þrjú, Einar Sverrisson tvö og Guðni Ingvarsson eitt.

Helgi Hlynsson varði sjö skot og var með 27% markvörslu og Sverrir Andrésson varði fimm skot og var með 31% markvörslu.

Fyrri greinEinvígi Þórs og Grindavíkur hefst á mánudag
Næsta greinFjallað um keltnesk örnefni