Selfyssingar komust ekki á flug

Hergeir Grímsson skoraði fjögur mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar töpuðu 24-26 þegar þeir fengu Aftureldingu í heimsókn í Olísdeild karla í handbolta í Set-höllina á Selfossi í kvöld.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og liðin skiptust á um að halda forystunni. Selfoss náði þriggja marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks en gestirnir skoruðu þrjú síðustu mörkin fyrir leikhlé og staðan var 14-14 í hálfleik.

Afturelding náði tveggja marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks og Selfyssingum tókst aldrei að brúa bilið. Þvert á móti þá jókst munurinn og varð mestur fimm mörk þegar níu mínútur voru eftir. Selfoss reyndi að klóra í bakkann en það var of seint og gestirnir unnu sanngjarnan sigur.

Selfoss er nú í níunda sæti deildarinnar með einn sigur í pokanum og næsta verkefni liðsins er Evrópuleikur gegn Jerusalem Ormos á heimavelli á laugardagskvöld kl. 19:30.

Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga í kvöld með 6 mörk, Hergeir Grímsson skoraði 4/1, Alexander Egan 4, Richard Sæþór Sigurðsson 3, Einar Sverrisson og Ísak Gústafsson 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson og Karolis Stropus skoruðu sitt markið hvor.

Vilius Rasimas var besti maður vallarins með 19 skot varin, en það dugði ekki til í kvöld.

Fyrri greinÁflug olli straumleysi á Selfosslínu 2
Næsta greinHjörvar tekur við liði KFR