Selfyssingar komu tómhentir úr Laugardalnum

Gary Martin skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir tvö töp í röð eru Selfyssingar aftur að sogast niður í fallbaráttuna í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Liðið tapaði 4-3 í dag gegn Þrótti R í fjörugum sex stiga leik í Laugardalnum.

Það var jafnræði með liðunum framan af leiknum á meðan þau þreifuðu fyrir sér. Á 30. mínútu kom Gary Martin Selfyssingum yfir en aðeins þremur mínútum síðar jöfnuðu Þróttarar. Slakur varnarleikur varð svo til þess að heimamenn skoruðu aftur á 43. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og skoruðu strax eftir þrjár mínútur, 3-1. Fimm mínútum síðar fengu Selfyssingar vítaspyrnu og Guðmundur Tyrfingsson skoraði úr henni. Selfyssingar voru mun líklegri í kjölfarið en tókst ekki að skora og fengu síðan blauta tusku í andlitið átta mínútum fyrir leikslok þegar Þróttarar skoruðu sitt fjórða mark.

Selfyssingar fengu sárabótarmark í uppbótartímanum þegar leikmaður Þróttar setti boltann í eigið net og lokatölur urðu 4-3.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 9. sæti með 19 stig en Þróttur er í 10. sæti með 18 stig. Þar fyrir neðan er Njarðvík með 17 stig, í fallsæti, en Njarðvíkingar eru næstu andstæðingar Selfoss. Liðin mætast á Selfossi á miðvikudagskvöld.

Fyrri greinMikilvægur heimasigur KFR
Næsta greinÞúsund stjörnur í Sigtúnsgarði