Selfyssingar komnir í sumarfrí

annes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 7/2 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Karlalið Selfoss í handbolta er komið í sumarfrí eftir stórt tap gegn FH í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta. Lokatölur í Set-höllinni urðu 24-33 og FH vann einvígið 2-0.

Selfyssingum gekk ekkert að skora í upphafi leiks þar sem Phil Döhler, markvörður FH, lokaði rammanum og staðan var fljótlega orðin 2-9. Selfoss átti tvo góða spretti eftir það, um miðjan fyrri hálfleikinn og í upphafi seinni hálfleiks en forskot gestanna var orðið allt of mikið. Staðan var 10-19 í hálfleik og góður sprettur Selfoss á upphafsmínútum seinni hálfleiks hafði ekkert að segja.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 7/2 mörk en hann lék vel í seinni hálfleiknum. Einar Sverrisson skoraði 4 mörk og Ísak Gústafsson 3, Richard Sæþór Sigurðsson, Gunnar Kári Bragason, Sölvi Svavarsson og Karolis Stropus skoruðu tvö mörk og þeir Guðmundur Hólmar Helgason og Tryggvi Sigurberg Traustason 1 mark hvor. Sölvi Svavarsson komst ekki á blað í sókninni en hann var öflugur í vörninni með 6 löglegar stöðvanir.

Selfyssingar fengu enga markvörslu í upphafi leiks en Vilius Rasimas varði 1 skot og var með 13% markvörslu á upphafsmínútunum. Þá kom Jón Þórarinn Þorsteinsson inn í markið í rúman hálftíma og átti frábæran leik, varði 11 skot og var með 37% markvörslu. Ekki versnaði staðan þegar Alexander Hrafnkelsson kom í rammann síðasta korterið því hann varði 7/1 skot og var með 58% markvörslu.

Fyrri greinFimm verktakar áhugasamir um Ölfusárbrú
Næsta greinLið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns sigraði í Suðurlandsdeildinni