Selfyssingar komnir í bullandi fallbaráttu

Selfyssingar misstu af gríðarlega mikilvægum stigum þegar liðið tók á móti Fram í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Gestirnir sigruðu 30-32 eftir dapra frammistöðu heimamanna.

Selfoss hefur nú 17 stig í 6. sæti en þar fyrir neðan eru Grótta, Fram, Stjarnan og Akureyri, öll með 15 stig.

„Framararnir koma hingað dýrvitlausir með bakið upp við vegg eins og við vissum. Þessi leikur var upp á líf og dauða fyrir þá en úrslitin þýða að við erum bara komnir í bullandi baráttu með þeim. Það var ekki fyrr en í seinni hálfleik að við sýndum eitthvað lífsmark en það er bara allt of dýrt í leik sem þessum. Ég hefði viljað sjá menn stíga fram og sýna að við værum sterkara liðið. Við gerðum það bara of seint,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss eftir leik.

Fyrri hálfleikurinn var með því slakasta sem Selfoss hefur sýnt í vetur og Fram náði mest átta marka forskoti, 7-15. Staðan var 11-18 í hálfleik. Selfoss minnkaði muninn í fjögur mörk eftir rúmar tíu mínútur í seinni hálfleik, 17-21. Stefán þjálfari tók áhættu með því að taka markmanninn af velli þegar liðið var í sókn. Það virkaði upp að vissu marki en þegar færin fóru forgörðum byrjuðu Framarar að raða inn mörkum í tómt Selfossmarkið.

Síðustu tíu mínúturnar voru Selfyssingar sterkari og Framarar, sem höfðu aftur náð sjö marka forskoti, fóru að hiksta. Lokasekúndurnar voru spennandi en munurinn varð minnstur tvö mörk á lokamínútunni þegar Framarar voru þremur mönnum færri.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 7/2 mörk. Einar Sverrisson skoraði 6, Hergeir Grímsson og Elvar Örn Jónsson 4 og þeir Alexander Egan, Örn Þrastarson og Guðni Ingvarsson skoruðu allir 3 mörk. Helgi Hlynsson varði 12 skot í marki Selfoss og Einar Vilmundarson 2.