Selfyssingar komnir á blað

Steven Lyles var stigahæstur Selfyssinga í kvöld. Ljósmynd: Selfoss karfa/BRV

Selfyssingar eru komnir á blað í 1. deild karla í körfubolta. Þeir sigruðu Snæfell 101-93 á heimavelli í gærkvöldi.

Snæfellingar byrjuðu betur og náðu fimm stiga forskoti undir lok 1. leikhluta en Selfoss skoraði 7 síðustu stigin í leikhlutanum og breyttu stöðunni í 20-18.

Selfyssingar eru í 2. sæti deildarinnar sem stendur, með 2 stig, en Snæfell er í 7. sæti, einnig með 7 stig. Selfoss átti góðan sprett í 2. leikhluta og leiddi í hálfleik 44-36.

Í 3. leikhluta höfðu Selfyssingar góð tök á leiknum og héldu gestunum frá sér. Síðasti fjórðungurinn var hins vegar mjög skrautlegur. Bæði lið hættu að spila vörn, Snæfellingar skoruðu grimmt á meðan Selfyssingar röðuðu niður þriggja stiga körfum. Snæfell minnkaði muninn í þrjú stig en Selfyssingar héldu haus á lokakaflanum og sigruðu. Alls voru skoruð 74 stig í 4. leikhluta.

Selfoss-Snæfell 101-93 (20-18, 24-18, 23-17, 34-40)
Tölfræði Selfoss: Steven Lyles 30/5 fráköst, Kristijan Vladovic 20/4 fráköst/8 stoðsendingar, Ari Hrannar Bjarmason 15/9 fráköst, Gísli Steinn Hjaltason 14, Collin Anthony Pryor 11/9 fráköst, Tristan Máni Morthens 11.

Fyrri greinÞórsarar byrja í brekku
Næsta greinHef verið handknattleiksmaður Hveragerðis í áratugi