Selfyssingar komnir á blað

Ída Bjarklind Magnúsdóttir. Ljósmynd/Árni Þór Grétarsson

Kvennalið Selfoss náði í sín fyrstu stig í úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld þegar liðið fékk Stjörnuna í heimsókn í æsispennandi leik. Úrslitin réðust 8 sekúndum fyrir leikslok og Selfoss sigraði 29-28.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn en jafnt var á öllum tölum fyrstu 28 mínúturnar. Selfoss skoraði síðustu tvö mörkin í hálfleiknum og staðan var 14-12 í leikhléi.

Selfoss hélt naumri forystu framan af seinni hálfleik en þegar tíu mínútur voru eftir var staðan orðin 24-24 og allt í járnum. Jafnt var á öllum tölum síðustu tíu mínúturnar en þegar 8 sekúndur voru eftir tryggði Ída Bjarklind Magnúsdóttir Selfyssingum sigurinn með glæsilegu marki.

Selfoss er nú með 2 stig í 7. sæti deildarinnar og þær skildu Stjörnukonur eftir á botni deildarinnar án stiga.

Mia Kristin Syverud var markahæst Selfyssinga með 8/1 mörk, Hulda Hrönn Bragadóttir, Harpa Valey Gylfadóttir og Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoruðu 4, Hulda Dís Þrastardóttir 3/3 og þær Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir, Sara Dröfn Richardsdóttir og Arna Kristín Einarsdóttir skoruðu allar 2 mörk. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 8/1 skot í marki Selfoss.

Fyrri greinStjarnan skein á Selfossi
Næsta greinTap í fyrsta heimaleik vetrarins