Selfyssingar urðu í kvöld Íslandsmeistarar í handknattleik karla eftir algjörlega magnaðan sigur á Haukum í fjórða leik einvígisins. Lokatölur urðu 35-25.

Það var stórkostleg stemmning í Iðu í kvöld þar sem Selfyssingar fengu frábæran stuðning úr stúkunni. Eftir að hafa komist tveimur mörkum yfir í upphafi leiks sáu Haukar vart til sólar í framhaldinu, þegar Mjaltavélin mallaði í gang. Selfoss komst snemma í 7-4 og í hálfleik var staðan orðin 16-11.

Stuðningsmenn Selfoss biðu eftir „slæma kaflanum“ hjá liðinu í seinni hálfleik, en hann kom bara ekki. Liðið sýndi ótrúleg gæði allan seinni hálfleikinn og fór hamförum bæði í vörn og sókn. Munurinn varð mestur ellefu mörk í seinni hálfleik, þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum, og þá má segja að úrslitin hafi verið ráðin.

Fögnuðurinn var gríðarlegur í leikslok og ekki var stemmningin minni þegar Hergeir Grímsson, fyrirliði, lyfti Íslandsmeistarabikarnum.

Elvar besti leikmaður úrslitakeppninnar
Elvar Örn Jónsson átti algjörlega frábæran leik fyrir Selfyssinga, skoraði 11/2 mörk. Hann var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar og átti það skilið. Alexander Egan skoraði 5 mörk og var með 100% skotnýtingu. Árni Steinn Steinþórsson, Haukur Þrastarson og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu allir 4 mörk, Guðni Ingvarsson 3, Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Nökkvi Dan Elliðason og Sverrir Pálsson skoruðu báðir 1 mark. Sverrir var með 100% skotnýtingu og var frábær í vörninni með 9 lögleg stopp, fimm blokkeringar og tvo stolna bolta.

Sölvi Ólafsson varði 15/1 skot í marki Selfoss og var með 32% markvörslu og Pawel Kiepulski var með 1/1 varið skot og 50% markvörslu.

Fyrri greinÁtta Sunnlendingar á Smáþjóðaleikunum
Næsta greinBikarinn yfir brúna!