Selfyssingar Íslandsmeistarar í futsal

Karlalið Selfoss tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í innanhússknattspyrnu, futsal, en úrslitakeppnin fór fram í Laugardalshöllinni um helgina.

Selfoss mætti Víkingi Ólafsvík í úrslitaleiknum en Víkingar hafa verið ósigrandi í futsal á undanförnum árum.

Víkingur Ó skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 10. mínútu og staðan var 0-1 í leikhléinu. Gylfi Dagur Leifsson jafnaði fyrir Selfoss í upphafi seinni hálfleiks og Ásgrímur Þór Bjarnason kom Selfyssingum í 2-1 þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Ólsarar jöfnuðu hins vegar þremur mínútum síðar en Richard Sæþór Sigurðsson átti síðasta orðið fyrir Selfoss og tryggði þeim 3-2 sigur.

Í kvennaflokki mætti Selfoss Álftanesi í úrslitaleiknum en sömu lið mættust í úrslitum í fyrra og þá urðu Selfyssingar Íslandsmeistarar. Álftanes hefndi hins vegar fyrir tapið í dag.

Álftanes komst í 1-0 en Eva Lind Elíasdóttir jafnaði fljótlega fyrir Selfoss. Álftnesingar komu sér hins vegar upp 3-1 forskoti fyrir hálfleik og breyttu svo stöðunni í 4-1 í upphafi seinni hálfleiks. Erna Guðjónsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Selfoss í seinni hálfleiknum og minnkaði muninn í 4-3 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Eva Lind Elíasdóttir var svo nálægt því að jafna í blálokin en markvörður Álftaness sá við henni.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr leikjunum af Youtubesíðu Sport TV