Selfyssingar í úrslitakeppnina – Skelltu Víkingum

Gott gengi Selfyssinga heldur áfram í 1. deild karla í handbolta en liðið lagði Víking R. á útivelli í kvöld, 25-29, og tryggði sér þar með sæti í úrslitakeppninni.

Selfyssingar mæta Aftureldingu í undanúrslitum úrslitakeppninnar sem hefst á sumardaginn fyrsta. Víkingur og Stjarnan mætast í hinu einvíginu en Víkingar héldu öðru sætinu þrátt fyrir tapið því Stjarnan beið lægri hlut á heimavelli í kvöld fyrir 1. deildarmeisturum ÍR, 26-29.

Guðni Ingvarsson átti mjög góðan leik fyrir Selfyssinga og var markahæstur með 8 mörk, Atli Kristinsson og Hörður Gunnar Bjarnason skoruðu 6 mörk, Janus Daði Smárason 3, Matthías Halldórsson og Gunnar Ingi Jónsson 2 og þeir Ómar Helgason og Andri Hallsson skoruðu báðir eitt mark.

Helgi Hlynsson varði 17/1 skot, þar af 15 í fyrri hálfleik og Sverrir Andrésson varði 4.