Selfyssingar í toppbaráttunni

Að loknum öðrum keppnisdegi á Íslandsmótinu í póker sem spilað er á Hótel Örk í Hveragerði um helgina eru tveir Selfyssingar í efstu fjórum sætunum.

Í morgun hófu 140 leikmenn keppni en þegar keppni dagsins var lokið sátu 26 spilarar eftir. Í 3. sæti eins og staðan er núna er Hafþór Gíslason með stakk upp á 535 þúsund og fjórði er Hrannar Eysteinsson með stakk upp á 449 þúsund. Fimmti er svo ML-ingurinn Stefán Guðberg Sigurjónsson úr Keflavík með 420.500.

Þriðji og síðasti keppnisdagurinn hefst á Hótel Örk kl. 12 á hádegi í dag og verður spilað þar til einn situr eftir. Efstu 21 spilararnir fá verðlaunafé, frá 130 þúsund krónum en sigurvegarinn fær 3,2 milljónir króna í sinn hlut.

Af öðrum Sunnlenskum spilurum má nefna að Víðir Freyr Guðmundsson endaði í 39. sæti og Guðmundur Garðar Sigfússon varð í 41. sæti.

Rangt var farið með stöðu mála í frétt sunnlenska.is í gærmorgun þar sem sagt var að Víðir Freyr væri efstur Sunnlendinga á mótinu. Hrannar var aðeins fyrir ofan hann en fréttin var byggð á óopinberri talningu mótshaldara. Biðjum Hrannar velvirðingar á þessu og óskum honum og Hafþóri góðs gengis í dag.

Fyrri greinDagný efnilegasti leikmaðurinn
Næsta greinGuðrún Péturs: Þjóð til þings