Selfyssingar héraðsmeistarar – Bryndís Embla tvíbætti Íslandsmet

Sigurlið Selfoss á héraðsmóti í frjálsum íþróttum 2022. Ljósmynd/HSK

Héraðsmót HSK í frjálsíþróttum var haldið á Selfossvelli dagana 17. og 18. ágúst sl. og voru 56 keppendur frá sex félögum skráðir til leiks.

Selfyssingar höfðu mikla yfirburði í stigakepppni félaga og hlutu samtals 339 stig, sameiginlegt lið Garps og Heklu varð í 2. sæti með 81 stig, Hrunamenn urðu í þriðja sæti með 30 stig, þá Þjótandi með 27 stig og Dímon hlaut 18 stig. Þá tóku tveir keppendur þátt frá FH sem gestir og voru því ekki með í stigakeppni félaga.

Í lok móts voru veitt sérverðlaun til stigahæstu keppenda mótsins. Stigahæst kvenna varð Ísold Assa Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, með 25 stig og stigahæsti karl varð Daníel Breki Elvarsson, Umf. Selfoss, með 26 stig. Hver keppandi gat tekið þátt í sex greinum til stiga og gefur fyrsta sætið sex stig, mest getur keppandi því fengið 36 stig.

Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, setti landsmet í spjótkasti í 13 ára flokki með 600 gr. spjóti á mótinu, en hún tvíbætti 10 ára gamalt met Höllu Maríu Magnúsdóttur. Bryndís kastaði fyrst 35,29 og svo 35,58 metra. Gamla metið var 33,63 m. Þessi met eru að sjálfsögðu HSK met líka. Þessi árangur er einnig bæting á 42 ára gömlu HSK meti Hildar Harðardóttur í 14 ára flokki. Met Hildar var 34,02 metrar.

Héraðsmót fatlaðra í frjálsum fór fram samhliða héraðsmótinu og þar varð María Sigurjónsdóttir, Suðra, fjórfaldur HSK meistari í kastgreinum.

Heildarúrslit mótsins má sjá á www.fri.is.

Boðhlaupssveitir Selfoss voru í 1., 2. og 3. sæti í 4×100 m boðhlaupi kvenna. Ljósmynd/HSK
Bryndís Embla Einarsdóttir sigraði í spjótkasti kvenna og tvíbætti Íslandsmet 13 ára með 600 gr kvennaspjót. Systir hennar, Hildur Helga Einarsdóttir, varð í 2. sæti og Þórhildur Arnarsdóttir, Hrunamönnum, varð í 3. sæti. Ljósmynd/HSK
Daníel Breki Elvarsson (lengst t.v.) var stigahæsti keppandinn í karlaflokki. Hér er hann með silfurverðlaun um hálsinn fyrir 400 m hlaup, ásamt þeim Þorvaldi Gauta Hafsteinssyni og Jónasi Grétarssyni. Ljósmynd/HSK
Ísold Assa Guðmundsdóttir var stigahæsti keppandinn í kvennaflokki. Ljósmynd/HSK
María Sigurjónsdóttir varð fjórfaldur meistari í kastgreinum á héraðsmóti fatlaðra. Ljósmynd/HSK
Fyrri greinReynslan skilaði ekki sigri
Næsta greinÍsak bestur og markahæstur á Ragnarsmótinu