Selfyssingar fyrstar til að sigra Blika

Bárbara Sól Gísladóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann frábæran sigur á Breiðabliki á útivelli í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 1-2 og skoraði Barbára Sól Gísladóttir sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok.

Selfyssingar byrjuðu reyndar ekki vel í leiknum því Breiðablik komst yfir á 8. mínútu með góðu skallamarki Alexöndru Jóhannsdóttur.

Selfossliðið svaraði strax fyrir sig með góðri baráttu og þær náðu að kæfa niður þann léttleikandi sóknarleik sem Blikar hafa verið þekktir fyrir í sumar. Blikar reyndu ítrekað langar sendingar upp í hornin til þess að komast á bakvið Selfossvörnina en vörn Selfoss var með allt á hreinu og Barbára Sól Gísladóttir geymdi til að mynda hættulegasta sóknarmann Blika í vasanum stærstan hluta leiksins.

Baráttan var mikil úti á vellinum í fyrri hálfleik og það sama var uppi á teningnum allan seinni hálfleikinn. Selfoss jafnaði metin á 52. mínútu með góðu marki. Blikar sváfu á verðinum og Tiffany McCarty fékk boltann úr innkasti bakvið Blikavörnina. Hún sendi góðan bolta fyrir sem Dagný Brynjarsdóttir skallaði dauðafrí í netið. Fyrsta markið sem Breiðablik fær á sig í sumar – og ekki það síðasta.

Bæði lið áttu hættulegar sóknir í kjölfarið og hvorugt þeirra ætlaði að sætta sig við jafntefli. Það voru hins vegar Selfyssingar sem fögnuðu í leikslok, því á 87. mínútu sendi Anna María Friðgeirsdóttir frábæra aukaspyrnu inn á vítateiginn og Barbára Sól kórónaði frábæran leik sinn með því að skalla boltann í netið.

Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 13 stig og á leik til góða á flest liðin fyrir ofan sig. Þær voru fyrstar til að sigra Breiðablik í sumar en Blikar sitja áfram á toppnum með 27 stig og markatöluna 42-2.

Fyrri greinÖruggur sigur í lokaleik Ragnarsmótsins
Næsta greinBjörninn unninn í tveimur knattspyrnuleikjum