Selfyssingar fóru á kostum gegn Fram

Ragnar Jóhannsson skoraði sjö mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan sigur á Fram í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í dag, 32-28. Þar með eru Selfyssingar líklega búnir að tryggja sér farseðil í úrslitakeppnina.

Leikir Selfoss og Fram á síðustu tímabilum hafa verið hörkuleikir en í dag áttu ríkjandi Íslandsmeistarar Selfoss ekki í neinum vandræðum með gestina. Staðan var 5-5 eftir tíu mínútna leik og þá rifu þeir vínrauðu sig í gang og náðu sex marka forskoti. Staðan var 20-14 í hálfleik.

Munurinn varð mestur þrettán mörk í seinni hálfleik, 30-17, og á síðustu tíu mínútunum gat Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, leyft sér að hvíla alla lykilmenn liðsins og leyft ungmennaliðinu að fá mínútur. Fram saxaði reyndar verulega á forskotið á þessum kafla en sigurinn var aldrei í hættu.

Selfoss er nú í 3. sæti deildarinnar með 24 stig en Fram er í níunda sæti með 18 stig.

Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Ragnar Jóhannsson skoraði 7, Hergeir Grímsson 5/1, Einar Sverrisson 4, Nökkvi Dan Elliðason 3, Tryggvi Þórisson 2 og þeir Ísak Gústafsson, Gunnar Flosi Grétarsson og Arnór Logi Hákonarson skoruðu allir 1 mark.

Vilius Rasimas varði 13 skot og Alexander Hrafnkelsson 1/1.

Fyrri greinSköpunargleðin við völd í Skjálftanum
Næsta greinHamar-Þór í sumarfrí