Selfyssingar fögnuðu sigri í fyrsta leik

Tryggvi Sigurberg Traustason og Jón Þórarinn Þorsteinsson fagna marki þess fyrrnefnda í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss hóf leik í 1. deild karla í handbolta á heimavelli í dag með stórsigri á Haukum-2.

Haukar skoruðu fyrsta mark leiksins en það var í eina skiptið sem þeir leiddu í leiknum. Selfoss komst í 8-3 og leiddi af öryggi allan leikinn. Staðan í hálfleik var 15-9.

Selfoss náði mest átta marka forskoti í seinni hálfleiknum og svöruðu alltaf fyrir sig þegar Haukar gerðu sig líklega til þess að saxa á forskotið. Lokatölur urðu 34-27.

Tryggvi Sigurberg Traustason og Jónas Karl Gunnlaugsson voru markahæstir Selfyssinga með 6 mörk, Álvaro Mallols og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu 5, Elvar Elí Hallgrímsson 3, Anton Breki Hjaltason, Hákon Garri Gestsson, Valdimar Örn Ingvarsson og Vilhelm Freyr Steindórsson 2 og Jason Dagur Þórisson 1.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 7 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 4.

Fyrri greinSelfoss örugglega í úrslitaleikinn
Næsta greinHarður árekstur í Flóanum