Selfyssingar flengdu Grindvíkinga

Selfoss hafði yfirburði á öllum sviðum þegar liðið lagði Grindavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur í Grindavík voru 0-4.

Heimamenn voru sprækari í upphafi en eftir tuttugu mínútna leik barst boltinn uppúr hornspyrnu á Jón Daða Böðvarsson sem lagði hann snyrtilega í netið af níu metra færi.

Markið var vindur í segl Selfyssinga en að sama skapi brotnuðu Grindvíkingar algjörlega niður. Jon Andre Röyrane lét kné fylgja kviði. Duracak tók markspyrnu sem Babacar Sarr fleytti innfyrir á 30. mínútu og þar var Röyrane sloppinn einn í gegn. Hann skoraði af öryggi og kom Selfoss í 0-2 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Hafi Grindvíkingar ætlað að stíga upp í síðari hálfleik gerði Tómas Leifsson út um vonir þeirra strax á annarri mínútu síðari hálfleiks þegar hann skoraði glæsilegt mark með skoti fyrir utan vítateig í þverslána og inn.

Eftir þriðja markið bökkuðu Selfyssingar og leyfðu Grindvíkingum að vera með boltann en sóknarleikur Grindvíkinga var átakanlega fyrirsjáanlegur og varnarmenn Selfoss höfðu sóknarmenn þeirra gulu í vasanum.

Leikurinn fjaraði smám saman út og ekki dró til tíðinda fyrr en á 87. mínútu þegar brotið var á Viðari Erni Kjartanssyni innan vítateigs og víti dæmt. Viðar fór sjálfur á punktinn og lét Óskar Pétursson, markvörð Grindavíkur, verja frá sér slakt víti. Viðar náði hins vegar frákastinu og renndi boltanum í netið framhjá Óskari.

Selfyssingar fögnuðu vel í leikslok ásamt stuðningsmönnum sínum sem fjölmenntu á völlinn á meðan lítið sást til stuðningsmanna Grindavíkur.

Selfoss er nú komið með 14 stig en situr enn í 11. sætinu þar sem Fram lagði Breiðablik á sama tíma í kvöld. Selfoss heimsækir Breiðablik á sunnudaginn.