Selfyssingar fallnir

Selfyssingar eru fallnir úr Pepsi-deild karla í knattspyrnu eftir 3-0 tap gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli í dag.

Selfyssingar vörðust aftarlega á vellinum í fyrri hálfleik og gáfu Blikum fáa sénsa. Fyrsta færi leiksins kom ekki fyrr en á 18. mínútu og það áttu heimamenn. Rúmum fimm mínútum síðar bjargaði Ingþór Guðmundsson síðan á marklínu en Selfyssingar sluppu inn í leikhléið án þess að fá á sig mark. Selfyssingum gekk ekkert að sækja enda héldu þeir boltanum ákaflega illa og sóknarleikurinn var máttlaus.

Seinni hálfleikur var mun fjörugri og strax á 49. mínútu fengu Blikar dauðafæri sem Jóhann Ólafur varði auðveldlega. Þremur mínútum síðar áttu Selfyssingar sitt fyrsta markskot en Viðar Örn Kjartansson skaut framhjá eftir góða skyndisókn. Eftir það tóku Blikarnir leikinn aftur í sínar hendur og skoruðu þrjú mörk á síðasta hálftímanum. Selfoss átti ekki teljandi færi ef frá er talið stangarskot Viðars Arnar á 85. mínútu í stöðunni 2-1.

Það er því ljóst að Selfyssingar eru fallnir úr Pepsi-deildinni og leika í 1. deildinni að ári. Síðasti leikur Selfoss í efstu deild að sinni er gegn Grindvíkingum á heimavelli nk. laugardag.

Fyrri greinHarður árekstur á Suðurlandsvegi
Næsta greinSlapp með minniháttar meiðsli