Selfyssingar fallnir

Selfoss féll í dag úr Pepsi-deild karla í knattspyrnu eftir 1-3 tap á heimavelli gegn ÍA.

Á sama tíma unnu Framarar ÍBV svo úrslitin í leik Selfoss skiptu ekki máli. Fram bjargaði sér með 27 stigum en Selfoss féll með 21 stig. Arfaslakt gengi í júní og júlí varð liðinu að falli.

Leikurinn var mjög fjörugur í fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á að sækja. Skagamenn skoruðu á 11. mínútu eftir mistök í vörn Selfoss en Jon Andre Röyrane jafnaði leikinn með góðu marki tveimur mínútum síðar.

Selfyssingar sóttu í sig veðrið eftir þetta og áttu nokkrar álitlegar sóknir en Skagamenn svöruðu með því að setja tvö mörk í andlitið á þeim vínrauðu, nokkuð gegn gangi leiksins. Skaginn komst yfir á 37. mínútu eftir slæm tilþrif í vörn Selfoss og fjórum mínútum síðar galopnaðist Selfossvörnin á nýjan leik og Skagamenn refsuðu með marki.

Leikurinn kláraðist síðan á 48. mínútu þegar Endre Brenne henti sér í tveggja fóta tæklingu og uppskar réttilega rautt spjald. Manni færri átti Selfoss lítinn möguleika á sigri og leikurinn fjaraði snarlega út.