Selfyssingar fallnir

Hanna skoraði fjögur mörk af vítalínunni í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Lið Selfoss er fallið úr Olísdeild kvenna í handbolta þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Selfoss tapaði 19-28 á heimavelli gegn ÍBV í dag.
 
ÍBV komst í 1-4 í upphafi leiks en Selfoss skoraði þá fjögur mörk í röð og komst yfir, 5-4. Þegar leið á fyrri hálfleikinn seig ÍBV framúr og staðan var orðin 9-14 í hálfleik.
 
Gestirnir náðu svo átta marka forskoti á fyrstu tólf mínútum seinni hálfleiks og þá má segja að úrslitin hafi verið ráðin. Selfoss náði ekki að saxa á forskotið en ÍBV spilaði fína vörn og var með góða markvörslu.
 
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 5/4 mörk, Sarah Sörensen skoraði 4, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir 3, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 2 og Tinna Sigurrós Traustadóttir 1.
 
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 5 skot í marki Selfoss og var með 20% markvörslu og Þórdís Erla Gunnarsdóttir varði 2/1 skot og var með 29% markvörslu.
 
Selfoss er í botnsæti deildarinnar með 4 stig en liðið kemst ekki uppfyrir HK sem er með 9 stig í 7. sæti þegar tvær umferðir eru eftir.
Fyrri greinHamar mætir Hetti í undanúrslitum
Næsta greinTveir leikir gegn Þór Ak. um helgina