Selfyssingar fá McIntosh

Skoski framherjinn Leighton McIntosh skrifaði í morgun undir samning við knattspyrnudeild Selfoss út sumarið, með möguleika á framlengingu næsta tímabil.

McIntosh mun fylla skarð framherjans Alfi Conteh-Lacalle sem var sendur heim á dögunum, en hann náði ekki að blómstra í Selfossbúningnum.

„Leighton er búinn að vera á reynslu hjá okkur síðan í síðustu viku og lítur ágætlega út. Þetta er kraftmikill leikmaður sem mun klára tímabilið með okkur og er um leið á reynslu fyrir næsta tímabil,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

McIntosh hóf atvinnumannaferil sinn hjá Dundee United í Skotlandi en síðustu tvö ár hefur hann leikið með Peterhead í skosku C-deildinni og skorað þar 20 mörk í 58 leikjum.

Skotinn er kominn með leikheimild og verður væntanlega í leikmannahópi Selfyssinga sem tekur á móti Keflavík í Inkasso-deildinni á morgun, miðvikudag.

Fyrri greinFólkið fannst í Emstruskála
Næsta greinGuðmundur Axel skoraði fyrir Ísland