Selfyssingar fá góðan liðsstyrk

Selfyssingar hafa bætt við sig tveimur erlendum leikmönnum fyrir lokasprettinn í N1 deild karla í handbolta.

Þarna eru á ferðinni Serbinn Milan Ivancev og Litháinn Andrius Zigelis. Báðir eru þeir 25 ára gamlir, Ivancev er miðjumaður og Zigelis vinstri hornamaður. Þeir fengu leikheimild með Selfossliðinu í dag og munu leika sinn fyrsta leik fyrir félagið þegar Selfoss tekur á móti Haukum í N1 deildinni nk. fimmtudagskvöld.

„Í ljósi þess hversu mikil meiðsli eru í meistaraflokknum þá þurftum við að leita að liðsstyrk til þess að bera hönd fyrir höfuð okkar. Við vorum svo heppnir að ná okkur í tvo ágætis leikmenn og líklega þá bestu sem við gátum fundið miðað við árstíma,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is í kvöld.

Ivancev er var í unglingalandsliði Serbíu, árgangi 1986, sem vann bæði heims- og Evrópumeistaratitil á sínum tíma. Sebastian segir hann fyrst og fremst góðan miðjumann þó hann geti einnig leikið vinstra megin. Ivancev kemur frá RK Porec í króatísku 1. deildinni.

Zigelis kemur að láni frá BGK-Meshkova Brest í Hvíta Rússlandi en hann hefur síðustu ár verið í herbúðum Litháensku meistaranna Granitas Kaunas. „Hann er líkamlega vel byggður og sterkur varnarmaður í ákveðnum stöðum, sérstaklega fyrir framan í 5-1. Hann er fyrst og fremst vinstri hornamaður en getur spilað skyttu,“ segir Sebastian.

Meiðslalisti Selfyssinga er langur og til að mynda er Atli Kristinsson frá vegna handarbrots og Guðjón Drengsson er með rifinn liðþófa. Einar Sverrisson er puttabrotinn og Eyþór Lárusson með rifinn liðþófa. „Þetta eru mjög mikilvægir leikmenn fyrir okkur og það er vonandi að nýju leikmennirnir nái að fylla í skörðin. Nú náum við að auka breiddina fyrir utan og létta álaginu af Ragnari,“ sagði Sebastian að lokum.