Selfyssingar fá Brons

Selfyssingar hafa samið við hollenska miðvörðinn Bernard Petrus Brons og mun hann leika með liði Selfoss í Pepsi-deildinni út leiktíðina.

Brons kom til landsins í gær til reynslu og samkvæmt heimildum sunnlenska.is sömdu Selfyssingar við hann strax að lokinni fyrstu æfingu. Brons kemur til Selfoss frá norska liðinu Fana IL.

Hann er 26 ára gamall, stór og sterkur miðvörður sem þykir góður í að stjórna og skipuleggja varnarleik. Forráðamenn Selfoss leituðu álits fjölmargra aðila og fær leikmaðurinn allstaðar góð meðmæli. Þá þekkir Endre Ove Brenne, varafyrirliði Selfoss, til leikmannsins.

Honum er ætlað að fylla skarð Stefáns Ragnars Guðlaugssonar, fyrirliða Selfoss, sem er meiddur og Agnars Braga Magnússonar sem heldur utan til náms um miðjan ágúst.

Brons ætti að verða gjaldgengur með Selfyssingum í næsta leik sem er gegn ÍA á mánudag en félagaskiptaglugginn verður opnaður á sunnudag.