Selfyssingar eltu allan tímann

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 13/1 skot í marki Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti topplið Vals í kvöld í Olísdeild karla í handbolta. Valsmenn keyrðu yfir Selfyssinga á upphafsmínútunum og gestirnir áttu sér varla viðreisnar von eftir það.

Valsmenn byrjuðu leikinn af krafti og voru komnir með sex marka forskot, 11-5, eftir rúmar tíu mínútur. Það reyndist Selfyssingum erfitt að brúa þetta bil og reyndar tókst það aldrei. Staðan í hálfleik var 21-16 og Selfyssingar réðu illa við hraðan sóknarleik Vals.

Selfoss minnkaði muninn í tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks en þá fór aftur að draga í sundur með liðunum. Munurinn var lengi í 4-5 mörkum og að lokum skildu fimm mörk liðin að, 38-33.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8/4 mörk, Sigurður Snær Sigurjónsson skoraði 6, Elvar Elí Hallgrímsson 5, Guðmundur Hólmar Helgason og Ísak Gústafsson 4, Guðjón Baldur Ómarsson 3, Gunnar Kári Bragason 2 og Tryggvi Sigurberg Traustason 1.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 13/1 skot í marki Selfoss og var með 36% markvörslu og Vilius Rasimas varði 1 skot og var með 6% markvörslu.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 9 stig en Valsmenn eru með 14 stig á toppnum.

Fyrri greinGlæsileg skólahreystibraut vígð í Vík
Næsta grein„Ótrúlegt að lítill lime ávöxtur hafi skemmt líf mitt“