Selfyssingar deildarbikarmeistarar

Kvennalið Selfoss sigraði Keflavík í kvöld í úrslitaleik C-deildar Lengjubikars kvenna í knattspyrnu, 0-1 í Reykjaneshöllinni.

Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 63. mínútu. Guðmunda slapp þá ein í gegn eftir að hafa sólað þrjá varnarmenn Keflavíkur og síðasta úrræði þeirra var að brjóta á henni.

Annars var leikurinn jafn allan tímann og bæði lið gerðu sig líkleg upp við mark andstæðinganna. Selfyssingar voru þó ívið sterkari og fengu fleiri færi. Guðmunda skoraði t.d. skallamark í fyrri hálfleik sem var dæmt af vegna mjög vafasamrar rangstöðu.

Þetta er fyrsti bikarinn sem meistaraflokkur kvenna á Selfossi hampar í knattspyrnu og Selfyssingar fögnuðu vel í leikslok.

Fyrri greinGrýlupottahlaup 2 – Úrslit
Næsta greinReykingar bannaðar við Geysi