Selfyssingar björguðu sér frá falli

Selfyssingar taka á móti Magna frá Grenivík. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan 3-0 sigur á Víkingi Ólafsvík á útivelli í dag í 1. deild karla í knattspyrnu. Þar með er ljóst að Selfoss heldur sæti sínu í deildinni en Víkingur Ó er fallið og Þróttur R líklega að fara sömu leið.

Selfyssingar voru sterkari á gervigrasinu í Ólafsvík í dag og Valdimar Jóhannsson kom þeim yfir með glæsilegu skoti utan við vítateiginn á 30. mínútu, eftir að Ingvi Rafn Óskarsson hafði skallað boltann fyrir fætur hans. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom Aron Einarsson Selfyssingum í 0-2 þegar hann fékk boltann í miðjum vítateignum og negldi honum í stöngina og inn.

Staðan var 0-2 í hálfleik og Selfyssingar höfðu fín tök á leiknum í seinni hálfleik. Þeir vörðust skipulega og áttu nokkrar ágætar sóknir. Á 58. mínútu slapp Gary Martin innfyrir og skoraði furðu auðveldlega eftir arfaslakan varnarleik Víkinga.

Heimamenn fengu sitt besta færi á 80. mínútu þegar boltinn fór í hendina á Danijel Majkic inni í vítateig Selfoss og vítaspyrna dæmd. Stefán Þór Ágústsson gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu Víkinga örugglega.

Selfyssingar eru komnir með 21 stig og hvorki Þróttur R eða Víkingur Ó geta náð þeim að stigum. Víkingar eru fallnir og örlög Þróttar geta einnig ráðist í dag, ef Þór Akureyri nær að leggja Fjölni að velli í leik sem hefst núna klukkan 16.

Fyrri greinAldrei fleiri nýnemar í FSu
Næsta greinÆgismenn sterkir á lokakaflanum