Selfyssingar bikarmeistarar í 4. flokki karla

Selfoss varð í dag bikarmeistarar 4. flokks karla yngri í handbolta þegar liðið sigraði FH 35-30 í úrslitaleik í Laugardalshöll. Staðan í hálfleik var 17-17.

Mikil spenna var í leiknum en Selfoss var sterkari aðilinn í seinni hálfleik. Selfoss komst í 22-18 í upphafi seinni hálfleiks og lét forystuna ekki af hendi eftir það. Forskotið var tvö mörk mestan hluta seinni hálfleiks en á lokakaflanum gáfu Selfyssingar í og unnu með fimm marka mun.

Maður leiksins var valinn Haukur Þrastarson, leikmaður Selfoss, en hann skoraði 21 mark í leiknum og átti sannkallaðan stórleik. Haukur var líka með frábæra skotnýtingu en hann skaut 23 sinnum að marki. Haukur klikkaði á fyrsta skoti sínu í leiknum en skoraði svo úr tuttugu skotum í röð áður en hann klikkaði aftur.

Haukur var, sem fyrr segir, markahæstur Selfyssinga með 21 mark, Sölvi Svavarsson skoraði 6, Haukur Páll Hallgrímsson og Aron Emil Gunnarsson 3 og þeir Þorsteinn Freyr Gunnarsson og Bergsveinn Vilhjálmur Ásmundsson skoruðu sitt markið hvor.

Alexander Hrafnkelsson varði 16/1 skot í marki Selfoss og var með 35% markvörslu.

Auk ofantalinna skipa liðið þeir Kári Kristinsson, Gunnar Flosi Grétarsson, Fannar Ársælsson, Einar Kári Sigurðsson, Daníel Garðar Antonsson, Daníel Karl Gunnarsson og Einar Ágúst Ingvarsson.

Fyrri greinIngólfur ráðinn landsliðsþjálfari
Næsta greinHamar fékk skell gegn toppliðinu