Selfyssingar bikarmeistarar í 3. flokki

Selfyssingar tryggðu sér í kvöld bikarmeistaratitilinn í 3. flokki karla í handbolta eftir sigur á Fram í hörkuleik, 24-27.

Selfyssingar spiluðu frábæra vörn í upphafi leiks og náðu strax 5-2 forystu. Framarar náðu að jafna 9-9 en Selfyssingar skoruðu þá þrjú mörk í röð og voru í kjölfarið yfir í hálfleik, 15-12.

Selfoss bætti í strax í upphafi seinni hálfleiks og náði sjö marka forskoti, 22-15. Þannig var leikurinn í öruggum höndum Selfyssinga fram undir miðjan seinni hálfleik. Þá breyttu Framarar í vörninni og sókn Selfoss riðlaðist nokkuð undir lokin. Fram minnkaði muninn niður í tvö mörk, 24-26, þegar rúm mínúta var eftir af leiknum en nær komust þeir ekki. Selfyssingar skoruðu síðasta mark leiksins þegar rúm hálf mínúta var eftir og næsta sókn Framara rann út í sandinn þannig að sigur Selfyssinga var í höfn.

Hergeir Grímsson var valinn maður leiksins en hann var markahæstur hjá Selfossi með 8 mörk. Elvar Örn Jónsson skoraði 6/3, Guðjón Ágústsson 4, Ómar Ingi Magnússon og Sævar Ingi Eiðsson 3, Árni Guðmundsson 2 og Alexander Már Egan 1. Oliver Gylfason átti fínan leik í marki Selfossi, varði 20 skot og var með 45,4% markvörslu.