Selfyssingar auka forskotið

Selfyssingar unnu mikilvægan 1-0 sigur á BÍ/Bolungarvík þegar liðin mættust á Ísafirði í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Selfyssingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik þrátt fyrir að færin væru ekki mörg. Ibrahima Ndiaye skoraði eina mark leiksins þegar hann kom boltanum af harðfylgi yfir marklínuna eftir baráttu í teignum á 37. mínútu.

Þannig stóðu leikar í hálfleik og í síðari hálfleik hélt sama baráttan áfram úti á vellinum en lítið var að gerast upp við mörkin. Heimamenn tóku við sér, sóttu nokkuð stíft síðasta hálftímann og áttu m.a. stangarskot en nær komust þeir ekki.

Með sigrinum juku Selfyssingar forskot sitt í 2. sæti og hafa nú 19 stig en Haukar, Þróttur og Fjölnir koma næst með 14 stig. Skagamenn eru sem fyrr öruggir í 1. sætinu með 25 stig.

Fyrri greinStigin skiptust jafnt á Hvolsvelli
Næsta greinSlasaðist á Sólheimajökli