Selfyssingar áfram í bikarnum eftir spennuleik

Ari Gylfason skoraði 9 stig fyrir Selfoss og tók 8 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið Selfoss er komið áfram í 16-liða úrslit bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir 94-91 sigur á Sindra frá Hornafirði í Gjánni á Selfossi í kvöld.

Leikurinn var jafn allan tímann, en Selfyssingar höfðu frumkvæðið lengst af. Selfoss komst í 17-8 í upphafi leiks og leiddi 24-19 að loknum 1. leikhluta en staðan í leikhléi var 44-43.

Liðin skiptust á að leiða í 3. leikhluta en Sindri skoraði síðustu fimm stig leikhlutans og komust þá í 69-70. Baráttan hélt áfram í síðasta fjórðungnum og þegar tæp mínúta var eftir af leiknum var staðan 89-91. Selfoss skoraði hins vegar fimm síðustu stigin í leiknum og tryggði sér sætan sigur.

Ari Gylfason og Michael Rodriguez áttu stórleik fyrir Selfoss í kvöld og voru stigahæstir með 30 og 28 stig.

Dregið verður í 16-liða úrslitin í hádeginu á morgun en auk Selfyssinga verða Hamar og Þór Þorlákshöfn í pottinum – og svo þrettán lið til viðbótar.

Tölfræði Selfoss: Ari Gylfason 30/5 fráköst, Michael E Rodriguez 28/4 fráköst/6 stolnir, Maciek Klimaszewski 12, Svavar Ingi Stefánsson 7, Snjólfur Marel Stefánsson 7/6 fráköst, Arminas Kelmelis 6, Björn Ásgeir Ásgeirsson 4, Hlynur Freyr Einarsson 5 fráköst.

Fyrri greinLjósbrá og Laufey unnu Hljóðkútinn
Næsta greinAlvarlegt slys á Suðurstrandarvegi