Selfyssingar áfram á toppnum

Markaskorarinn Gary Martin sækir að marki Fylkis í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Fylkir skildu jöfn í toppslag 1. deildar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld, 2-2.

Leikurinn var jafn og fjörugur framan af, Selfoss fékk betri færi en Fylkismenn urðu fyrri til að skora. Þeir komust yfir með marki eftir hornspyrnu á 41. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og uppskar vafasama vítaspyrnu strax á 51. mínútu. Hrvoje Tokic fór á punktinn og skoraði af öryggi. Aðeins fjórum mínútum síðar voru Selfyssingar komnir yfir, þeir unnu boltann ofarlega á vellinum og Gary Martin slapp innfyrir og skoraði af öryggi.

Leikurinn var jafn eftir þetta en á 66. mínútu varð vendipunktur þegar Aron Einarsson fékk rauða spjaldið, en hann fékk tvö gul með þriggja mínútna millibili. Selfyssingar féllu aftar og aftar á völlinn eftir þetta og jöfnunarmarkið lá í loftinu. Það leit dagsins ljós á 90. mínútu og var ekki af fallegri gerðinni; klafs í vítateignum eftir hornspyrnu. Nokkrum andartökum síðar fékk leikmaður Fylkis sitt annað gula spjald og þar með rautt, þannig að bæði lið luku uppbótartímanum með tíu menn inni á vellinum.

Selfyssingar eru áfram ósigraðir á toppnum með 14 stig en Fylkir er tímabundið í 2. sæti með 11 stig.

Fyrri greinSigurjón ráðinn bæjarstjóri Hornafjarðar
Næsta greinEnginn stöðvar Uppsveitir