Selfyssingar á toppnum eftir magnaðan sigur

Elvar Örn Jónsson var frábær í kvöld og skoraði 7 mörk. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfyssingar eru einir á toppi Olísdeildar karla í handbolta og ennþá taplausir eftir magnað uppgjör við FH í Kaplakrika í kvöld. Selfoss vann 27-30 í háspennuleik.

FH-ingar náðu fljótlega frumkvæðinu í fyrri hálfleik og leiddu 10-5 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Selfoss náði 4-1 kafla í kjölfarið og jafnaði svo 13-13 undir lok fyrri hálfleiks en staðan var 14-13 í leikhléi.

Seinni hálfleikur var hnífjafn og lokakaflinn var æsispennandi og sveiflukenndur. Selfoss komst tveimur mörkum yfir þegar átta mínútur, 23-25, voru eftir en fóru illa að ráði sínu í næstu sóknum og FH-ingar voru fljótir að jafna. Selfyssingar voru hins vegar ekki hættir og Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú af fjórum síðustu mörkum liðsins á rúmum tveimur mínútum.

Elvar Örn var frábær í leiknum og tók af skarið þegar á þurfti að halda. Hann var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk. Árni Steinn Steinþórsson átti sömuleiðis mjög góðan leik, skoraði 6 mörk, og var oft á tíðum eini leikmaður Selfoss sem fann leiðir framhjá sínum gamla félaga, Birki Fannari Bragasyni, sem átti góðan leik framan af í marki FH.

Haukur Þrastarson skoraði einnig 6 mörk, Atli Ævar Ingólfsson 4, Einar Sverrisson 2/1, Guðjón Baldur Ómarsson og Hergeir Grímsson 2 og Guðni Ingvarsson 1. Pawel Kiepulski varði 15 skot í marki Selfoss.

Selfoss hefur 11 stig í toppsæti deildarinnar að loknum sex umferðum. Haukar koma næstir með 9 stig.
Fyrri greinEkið á tvö hross á Eyrarbakkavegi
Næsta greinStúlkurnar eru fundnar