Selfossvörnin hélt Fylki í skefjum

Selfyssingar unnu öruggan heimasigur á Fylki í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 29-14.

Selfyssingar höfðu frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn en náðu ekki að byggja upp öruggt forskot fyrr en nokkuð var liðið á fyrri hálfleik. Markvörður Fylkis var í fínu formi og hélt sínum mönnum inni í leiknum auk þess sem Selfyssingar voru ekki að dansa í vörninni framan af.

Undir lok fyrri hálfleiks tóku þeir vínrauðu sig á og breyttu stöðunni úr 9-7 í 16-8, en staðan var 16-9 í hálfleik. Nokkrar tafir urðu á fyrri hálfleiknum þar sem einn leikmaður Fylkis slasaðist illa og var leikurinn stopp á meðan sjúkraflutningamenn veittu honum aðhlynningu, en talið var að leikmaðurinn væri ökklabrotinn. Þá fór vallarklukkan úr sambandi undir lok fyrri hálfleiks og urðu frekari tafir við það.

Selfyssingar mættu mun einbeittari til síðari hálfleiks og Fylkismenn komust ekkert áleiðis í sókninni. Reyndar voru Selfyssingar klaufar að nýta sínar sóknir ekki betur því fjölmörg skot fóru í eða framhjá rammanum auk þess sem markverðir Fylkis héldu áfram að verja vel.

Fylkir skoraði aðeins tvö mörk á fyrstu 25 mínútum síðari hálfleiks og ekkert fór að gerast hjá þeim fyrr en Eyþór Jónsson var settur inná, en hann er einn af fjölmörgum Selfyssingum í liði Fylkis. Eyþór skoraði þriðja mark sinna manna í seinni hálfleik þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Selfossvörnin var góð í seinni hálfleik og markverðirnir ferskir en Sverrir Andrésson stóð vaktina síðustu tuttugu mínúturnar og var með 100% markvörslu allt þar til Eyþór sá við honum og skoraði úr vítinu.

Einar Sverrisson fór mikinn í sóknarleiknum hjá Selfossi og skoraði 11/3 mörk. Einar Pétur Pétursson skoraði fimm mörk, Matthías Halldórsson fjögur, Árni Geir, Jóhann Erlingsson og Atli Kristinsson skoruðu allir tvö mörk og þeir Hörður Bjarnarson og Jóhann Gunnarsson skoruðu sitt markið hvor.

Markverðir Selfoss voru í fínu formi. Helgi Hlynsson varði 14/1 skot og var með 56% markvörslu og Sverrir Andrésson varði 9 skot og var með 75% markvörslu.

Selfoss mætir Stjörnunni í næstu umferð á heimavelli, að viku liðinni. Stjarnan rúllaði yfir Gróttu í kvöld, 34-24.