Selfossstelpur Íslandsmeistarar í 3. flokki

Selfoss lagði Val 2-0 í úrslitaleik 3. flokks kvenna í knattspyrnu í dag og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.

Valsliðið er firnasterkt og hafði fyrir leikinn ekki tapað leik í rúm tvö ár. Selfyssingar voru hins vegar skynsamir, spiluðu agaðan varnarleik og nýttu stórhættulega sóknarmenn sína í hröðum skyndisóknum. Þó að Valsliðið hafi haldið boltanum betur þá áttu Selfyssingar hættulegri sóknir.

Selfoss skoraði eitt mark í hvorum hálfleik. Kristín Elísabet Skúladóttir kom Selfoss yfir á 20. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Bríet Mörk Ómarsdóttir tryggði Selfyssingum síðan sigurinn með marki úr vítaspyrnu um miðjan síðari hálfleik. Eva Lind Elíasdóttir hafði þá brunað upp völlinn þar sem varnarmaður Vals braut á henni innan vítateigs.

Selfyssingar fögnuðu vel í leikslok enda ekki á hverjum degi sem Íslandsmeistaratitill vinnst hjá félaginu. Þetta er í raun aðeins annar titill félagsins í yngri flokkum en 43 ár eru síðan 2. flokkur karla varð Íslandsmeistari.

Fyrri greinÚrslitaleikur hjá stelpunum
Næsta greinÚtlit fyrir mikla rigningu