Selfossliðin töpuðu bæði 29-32

Selfossliðin í Olís-deild karla og kvenna töpuðu bæði leikjum sínum í dag, 29-32. Kvennaliðið sótti ÍBV heim en karlaliðið tók á móti Akureyri.

Í Vestmannaeyjum leiddu Selfyssingar í upphafi leiks en ÍBV komst yfir eftir tíu mínútna leik og hélt forystunni eftir það. Staðan var 15-13 í hálfleik. Í seinni hálfleik hafði ÍBV góð tök á leiknum en Selfyssingar nálguðust á lokamínútunum án þess að þeim tækist að jafna. Lokatölur 32-29.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 11/3 mörk, Adina Ghidoarca skoraði 7, Perla Ruth Albertsdóttir 5, Carmen Palamariu 3 og þær Margrét Jónsdóttir, Anna Einarsdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Katrin Ósk Magnúsdóttir varði 11 skot í marki Selfoss og Áslaug Ýr Bragadóttir 4.

Selfoss er enn án stiga í 7. sæti deildarinnar.

Strákunum varð lítið ágengt gegn Akureyrarvörninni
Karlalið Selfoss tók á móti Akureyri í Vallaskóla og þar unnu Akureyringar sinn fyrsta sigur í deildinni. Selfoss byrjaði betur en gestirnir komust yfir eftir tíu mínútna leik. Selfoss náði tvívegis að jafna í fyrri hálfleik en annars var leikurinn í nokkuð öruggum höndum gestanna. Staðan var 13-15 í hálfleik. Í seinni hálfleik hafði Akureyri undirtökin og Selfyssingum gekk illa gegn góðri vörn gestanna. Lokatölur 29-32.

Elvar Örn Jónsson skoraði 7/1 mörk fyrir Selfoss, Andri Már Sveinsson 6, Teitur Örn Einarsson 4/1, Hergeir Grímsson, Einar Sverrisson og Eyvindur Hrannar Gunnarsson skoruðu allir 3 mörk og þeir Magnús Öder Einarsson, Guðjón Ágústsson og Árni Guðmundsson skoruðu allir 1 mark.

Grétar Ari Guðjónsson varði 10 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 1.

Selfoss er í 7. sæti deildarinnar með 4 stig.