Selfosskonur steinlágu í bikarnum

Kvennalið Selfoss er úr leik í Borgunarbikarnum í knattspyrnu eftir 1-6 tap gegn FH í 16-liða úrslitunum á Selfossvelli í kvöld.

FH-ingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og komust í 0-3 á tólf mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks. Þegar átján mínútur voru liðnar af leikum var Anna María Friðgeirsdóttir borin meidd af velli eftir samstuð. Hún reyndist handleggsbrotin og var flutt á slysadeild til Reykjavíkur.

Staðan var 0-3 í hálfleik en Selfyssingar komust betur inn í leikinn í seinni hálfleik þó að FH hafi alltaf haft yfirhöndina.

Fjórða mark gestanna kom 54. mínútu en þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum minnkaði Katrín Ýr Friðgeirsdóttir muninn í 1-4. Skömmu síðar fékk Guðmunda Brynja Óladóttir dauðafæri en gestirnir komust í 1-5 á 81. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Tveimur mínútum síðar slapp Guðmunda ein innfyrir en markvörður FH varði auðveldlega frá henni.

Gestirnir skoruðu svo síðasta mark leiksins á 87. mínútu og lokatölur voru 1-6.