Selfosskonur feikilega öruggar á heimavelli

Harpa Valey Gylfadóttir skoraði 6 mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss heldur áfram sigurgöngu sinni í Grill-66 deildinni í handbolta en í kvöld vann liðið öruggan sigur á ungmennaliði Hauka í Set-höllinni á Selfossi.

Það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda í kvöld. Selfoss skoraði fyrstu fimm mörk leiksins og staðan var 11-3 eftir korter. Heimakonur tóku fótinn ekki af bensíngjöfinni þrátt fyrir muninn og leiddu 19-7 í hálfleik.

Selfyssingar voru miklu betri í upphafi seinni hálfleiks og eftir rúmar tólf mínútur var staðan orðin 25-9 og úrslitin löngu ráðin. Haukar-U minnkuðu bilið á lokakaflanum en niðurstaðan varð stórsigur Selfoss, 31-19.

Arna Kristín Einarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Harpa Valey Gylfadóttir skoraði 6, Perla Ruth Albertsdóttir 5, Tinna Sigurrós Traustadóttir og Katla Björg Ómarsdóttir 3, Adela Jóhannsdóttir og Katla María Magnúsdóttir 2 og þær Rakel Guðjónsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir skoruðu 1 mark hvor.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 10 skot í marki Selfoss og Ágústa Jóhannsdóttir 1.

Fyrri greinÞórsarar sigruðu heima en Hamar tapaði
Næsta greinJökullinn skríður fram í fyrsta sinn í 14 ár