Selfosskonum skellt á heimavelli

Kvennalið Selfoss steinlá þegar liðið tók á móti FH í Lengjubikarnum í knattspyrnu í kvöld. Gestirnir sigruðu 1-5.

Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum og sóttu stíft að marki FH á köflum án þess þó að færin væru mörg. Gestirnir komust yfir á 37. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik.

FH-ingar höfðu töglin og hagldirnar í seinni hálfleik og þær komust í 0-3 á stuttum kafla á fyrstu fimmtán mínútum seinni hálfleiks.

Guðmunda Brynja Óladóttir minnkaði muninn í 1-3 á 68. mínútu en í kjölfarið fylgdu tvö mörk frá FH og lokatölur urðu 1-5.

Með sigrinum fór FH á toppinn á riðlinum með 7 stig eins og Afturelding en Selfoss er í 4. sæti með 3 stig.

Síðasti leikur Selfoss í riðlinum er á laugardaginn kl. 14 þegar liðið tekur á móti Þrótti á Selfossvelli.

Fyrri greinSævar er ungur vísindamaður ársins
Næsta greinHvetja neytendur til að sniðganga verslanir