Selfoss velgdi Valsmönnum undir uggum

Hannes Höskuldsson leitar leiða framhjá Björgvini Páli Gústafssyni í marki Vals. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sóknarleikurinn var í hávegum hafður þegar Selfoss tók á móti toppliði Vals í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. Eftir spennandi lokakafla sigraði Valur 40-43.

Jafnt var á öllum tölum upp í 9-9 en þá tók Valur af skarið og leiddi 10-14 um miðjan fyrri hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 19-23.

Valsmenn höfðu áfram undirtökin lengst af seinni hálfleiknum en þegar dró nær leikslokum fóru leikar að æsast. Selfoss jafnaði 38-38 þegar sex mínútur voru eftir en Valsmenn voru sterkari á endasprettinum og unnu að lokum þriggja marka sigur.

Hannes Höskuldsson og Gunnar Kári Bragason fóru mikinn í liði Selfoss og skoruðu báðir 10 mörk, Hannes þar af eitt af vítalínunni. Tryggvi Sigurberg Traustason og Sölvi Svavarsson skoruðu 4, Haukur Páll Hallgrímsson og Hákon Garri Gestson 3 og þeir Jason Dagur Þórisson, Valdimar Örn Ingvarsson og Anton Breki Hjaltason skoruðu allir 2 mörk.

Alexander Hrafnkelsson varði 12 skot í marki Selfoss og var með 23% markvörslu.

Selfoss fer inn í jólafríið í 10. sæti með 9 stig en Valur er í toppsætinu með 24 stig.

Fyrri greinMikil brennisteinsmengun frá Nesjavallavirkjun
Næsta greinUmhverfisnefnd ML hlaut umhverfisviðurkenningu