Selfoss velgdi toppliðinu undir uggunum

Gerald Robinson skoraði 33 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti toppliði Hattar í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Eftir hörkuleik höfðu gestirnir betur á lokasprettinum og sigruðu 71-89.

Höttur var skefinu á undan í 1. leikhluta en í upphafi 2. leikhluta náði Selfoss að jafna 26-26 og komast yfir í kjölfarið. Höttur lokaði fyrri hálfleik hins vegar á 14-5 áhlaupi og staðan í hálfleik var 38-42.

Leikurinn var í járnum framan af seinni hálfleik en undir lok 3. leikhluta juku gestirnir forskotið og staðan var 55-70 þegar 4. leikhluti hófst. Þá tók við kraftmikill kafli hjá Selfyssingum sem spiluðu frábæra vörn og minnkuðu muninn í 71-74 þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. En þar með var öll sagan sögð. Selfoss skoraði ekki fleiri stig í kvöld og Hattarmenn skoruðu síðustu fimmtán stig leiksins.

Gerald Robinson var stigahæstur Selfyssinga með 21 stig og 11 fráköst, Gasper Rojko skoraði 17 stig og tók 10 fráköst og Trevon Evans skoraði 13 stig og tók 6 fráköst.

Hamar tapaði stórt
Hamar tapaði með 30 stiga mun gegn Álftanesi á útivelli. Heimamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu 50-33 í hálfleik. Munurinn breyttist lítið í 3. leikhluta en í þeim fjórða stungu heimamenn af og sigruðu að lokum 100-70. Björn Ásgeir Ásgeirsson var stigahæstur hjá Hamri með 22 stig og Dareial Franklin skoraði 21.

Frestað á Flúðum
Leik Hrunamanna og ÍA var frestað fram á mánudagskvöld vegna kórónuveirusmita í herbúðum ÍA.

Staðan
Staðan í deildinni er sú að Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 18 stig, Hrunamenn eru í 8. sæti með 12 stig og Hamar í 9. sæti með 6 stig.

Fyrri greinSkellur í fyrsta leik
Næsta greinSelfyssingar gengu berserksgang