Selfoss varði titilana

Blandað lið Selfoss varði Íslands- og deildarmeistaratitla sína á Íslandsmótinu í hópfimleikum sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um helgina.

Sigur Selfoss á föstudagskvöldið var mjög öruggur en liðið varð efst á öllum áhöldum og lauk keppni með 54,600 stig, 3,350 stigum á undan Stjörnunni sem varð í 2. sæti. Gerpla varð í 3. sæti með 46,450 stig.

Á laugardeginum var svo keppt á einstökum áhöldum og þar tryggðu Selfyssingar sér Íslandsmeistaratitilinn á dýnu. Keppnin var æsispennandi og munaði oft örlitlu á milli liðanna. Stjarnan sigraði á gólfi og Gerpla á trampolíni.