Selfoss varð undir í Eyjum

Kvennalið Selfoss tapaði 34-21 þegar liðið heimsótti ÍBV til Vestmannaeyja í Olísdeildinni í handbolta í dag.

Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar en þá tóku Eyjakonur leikinn í sinn hendur og leiddu í leikhléi, 16-11. Heimaliðið var svo mun atkvæðameira í seinni hálfleiknum og ÍBV sigraði að lokum með þrettán marka mun.

Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoraði sex mörk fyrir Selfoss og þær Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu báðar fimm mörk. Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 4 og Arna Kristín Einarsdóttir 1.

Viviann Petersen varði 8 skot í marki Selfoss og var með 22% markvörslu og Dröfn Sveinsdóttir varði 1 skot og var með 12% markvörslu.

Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 5 stig en ÍBV er í 3. sæti með 13 stig.

Fyrri greinLóusöngur á aðventunni
Næsta greinVíðir og Jóhann til KSÍ