Selfoss varð undir í Eyjum

Hulda Dís Þrastardóttir jafnaði metin fyrir Selfoss þegar fjórar sekúndur voru eftir. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss tapaði 28-23 þegar liðið heimsótti ÍBV til Vestmannaeyja í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld.

Leikurinn var jafn fyrstu fimmtán mínúturnar en þá breyttu Eyjakonur stöðunni úr 4-4 í 8-5. Selfoss tapaði mörgum boltum á lokakafla fyrri hálfleiks og staðan var orðin 14-7 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn varð aldrei spennandi en munurinn varð mestur níu mörk, 19-10 í upphafi seinni hálfleiks. Sóknarleikur Selfoss batnaði í kjölfarið en þær vínrauðu voru þó aldrei nálægt því að vinna niður forskot ÍBV.

Harpa Brynjarsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir voru markahæstar Selfyssinga með 6 mörk, Elva Rún Óskarsdóttir skoraði 3, Ída Magnúsdóttir og Perla Albertsdóttir 2 og þær Arna Kristín Einarsdóttir, Sigríður Lilja Sigurðardóttir, Katla Björg Ómarsdóttir og Agnes Sigurðardóttir skoruðu allar 1 mark.

Viviann Petersen varði 11 skot í marki Selfoss.

Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 7 stig en ÍBV er í 4. sæti með 26 stig og tryggði sér í kvöld sæti í úrslitakeppni deildarinnar.

Fyrri greinBráðahættuástand í íshelli í Blágnípujökli
Næsta greinHeitavatnslaust á Eyrarbakka, Stokkseyri og í Sandvíkurhreppi