Selfoss vann uppgjör toppliðanna

Tinna Soffía Traustadóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss er komið með aðra höndina á deildarmeistaratitilinn í 1. deild kvenna í handbolta eftir sigur í uppgjöri toppliðanna á útivelli gegn ÍR í kvöld.

Selfoss ætlaði sér aldrei að gera leikinn spennandi heldur mættu þær tilbúnar í slaginn og náðu góðu forskoti í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 13-19 og Selfyssingar gáfu ekkert eftir í seinni hálfleiknum, héldu forskotinu og sigldu heim öruggum 26-32 sigri.

Eftir leik kvöldsins eru Selfosskonur í toppsæti deildarinnar með 30 stig en ÍR í 2. sæti með 29 stig. Selfoss á þrjá leiki eftir í deildinni en ÍR tvo.

Tinna Soffía Traustadóttir var markahæst Selfyssinga í kvöld með 9 mörk, Tinna Sigurrós Traustadóttir og Roberta Stropus skoruðu 8, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir, Emilía Ýr Kjartansdóttir og Elín Krista Sigurðardóttir skoruðu allar 2 mörk og Katla Björg Ómarsdóttir 1.

Sunnlenska.is hefur ekki komið höndum yfir markvörsluna í leiknum en Dröfn Sveinsdóttir varði vel framan af leik og Mina Mandic kom svo inná og klukkaði nokkra bolta, samkvæmt tíðindamanni vefsins, sem var staddur í stúkunni ásamt miklum fjölda vínrauðra Selfyssinga, sem létu vel í sér heyra allan leikinn.

Fyrri greinListi Framsóknar í Árborg samþykktur
Næsta greinFeykisterk fimmgangskeppni í Suðurlandsdeildinni