Selfoss er að stinga af í 2. deild kvenna í knattspyrnu en þær eru eina taplausa liðið í deildinni eftir að hafa lagt ÍH 3-2 á Selfossvelli í dag í hörkuleik.
ÍH komst yfir strax á 6. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og Guðmunda Brynja Óladóttir og Embla Dís Gunnarsdóttir skoruðu með tvegga mínútna millibili.
Björgey Njála Andreudóttir kom Selfyssingum svo í 3-1 um miðjan seinni hálfleikinn og tryggði þar með sigur þeirra vínrauðu. ÍH skoraði sárabótarmark á 7. mínútu uppbótartímans og lokatölur urðu 3-2.
Selfoss er með 30 stig í toppsæti deildarinnar, fullt hús stiga, en ÍH er í 2. sæti með 22 stig og á leik til góða.
