Selfoss vann Suðurlandsslaginn

Árekstur Oddur Ólafsson stöðvar Trevon Evans í leiknum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann Hamar á útivelli í fyrstu umferð 1. deildar karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Þetta var alvöru Suðurlandsslagur og sveiflurnar voru miklar.

Selfyssingar voru mun betri í fyrri hálfleik og leiddu 29-45 í leikhléi. Hamarsmenn mættu hins vegar af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn, spiluðu frábæra vörn og nærðust á stemmningunni í húsinu. Hvergerðingar gerðu 25-12 áhlaup í upphafi seinni hálfleiks og minnkuðu muninn í þrjú stig, 54-57. Þá tóku Selfyssingar aftur við sér og juku forskotið í 61-73 áður en 3. leikhluti var flautaður af.

Selfoss hafði frumkvæðið í 4. leikhluta en Hamar var aldrei langt undan. Um miðjan 4. leikhluta munaði sex stigum á liðunum, 76-82, en Selfoss hélt betur á spilunum á lokamínútunum og vann að lokum nokkuð öruggan sigur, 80-93.

Selfoss fékk gott framlag frá mörgum leikmönnum en þeir Gasper Rojko og Trevor Evans voru atkvæðamestir. Evans skoraði 27 stig og sendi 9 stoðsendingar og Rojko skoraði 20 stig. Besti maður vallarins var hins vegar Pétur Geir Jónsson sem skoraði 27 stig fyrir Hamar og tók 13 fráköst.

Tölfræði Hamars: Pálmi Geir Jónsson 27/13 fráköst, Kristijan Vladovic 20/11 stoðsendingar, Haukur Davíðsson 14, Maciek Klimaszewski 8, Oddur Ólafsson 8/7 fráköst, Benjamín Þorri Benjamínsson 3.

Tölfræði Selfoss: Trevon Lawayne Evans 27/5 fráköst/9 stoðsendingar, Gasper Rojko 20/5 fráköst, Gerald Robinson 14/17 fráköst, Óli Gunnar Gestsson 13, Vito Smojer 13, Ísar Freyr Jónasson 4/7 fráköst, Gabríel Douane Boama 2.

Áhorfendur: 233.

Fyrri greinVinstri grænir biðja um endurtalningu
Næsta greinFlóaskóli fékk fyrsta Grænfánann