Selfoss vann Suðurlandsslaginn

Ingvi Rafn Óskarsson og Anton Breki Viktorsson í harðri baráttu um boltann. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann 3-1 sigur á Ægi í bráðskemmtilegum leik í Lengjudeild karla í knattspyrnu í rokinu í Þorlákshöfn í kvöld. Þetta var fyrsta viðureign liðanna á Íslandsmótinu í 24 ár.

Selfyssingar skoruðu strax á 2. mínútu eftir að Þorsteinn Aron Antonsson kom boltanum í netið eftir að Aron Fannar Birgisson skallaði boltann fyrir markið uppúr hornspyrnu. Fyrri hálfleikurinn var bráðfjögrugur þó sterkur hliðarvindur hefði sett sinn svip á hann. Hrvoje Tokic jafnaði metin fyrir Ægi á 13. mínútu með ótrúlegu marki, Stefán Þór Ágústsson átti slaka sendingu frá marki Selfoss sem lenti á Antoni Breka Viktorssyni og þaðan barst boltinn á Hrvoje Tokic sem lyfti boltanum snilldarlega yfir Stefán á móti sterkum vindi og einhvern veginn sveif boltinn í netið.

Þetta voru einu mörk fyrri hálfleiks en bæði lið fengu svo sannarlega færi til að bæta í. Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleik en Ægismenn áttu sínar sóknir og hefðu hæglega getað skorað áður en Guðmundur Tyrfingsson kom Selfossi í 2-1 á 82. mínútu. Ægir tapaði boltanum á slæmum stað og Selfyssingar voru fljótir að refsa með marki. Gestirnir frá Selfossi gerðu svo endanlega út um leikinn á 89. mínútu þegar Gary Martin skoraði snyrtilegt mark eftir stoðsendingu frá Stefáni í markinu. Vel afgreitt hjá Selfyssingum sem lyftu sér upp í 5. sætið með sigrinum. Selfoss er nú með 6 stig en Ægir er á botninum með 1 stig.

Fyrri greinElvar Gunn fyrsti gestasöngvari Hr. Eydís
Næsta greinÖlfus gerist Heilsueflandi samfélag